Aðgerðir gegn skúffufélögum - Tilskipun ESB
Um ATAD 3 – Aðgerðir gegn skúffufélögum
Hinn 22. desember 2021 kynnti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) drög að tilskipun, sem nefnd er ATAD 3 (e. European Anti-tax avoidance directive 3). Um miðjan janúar sl. samþykkti Evrópuþingið tilskipunina með ákveðnum breytingum. Tilgangur tilskipunarinnar er að tryggja að aðilar innan Evrópusambandsins sem hafa enga eða litla efnislega tilvist (e. minimum substance) geti ekki notið skattalegra fríðinda. Í þessu skyni skal heimilisfestarríki aðilans neita honum um skattalegt búsetuvottorð með formlegri yfirlýsingu, ásamt rökstuðningi.
Tilskipunin mun gilda um öll félög sem skráð eru innan ESB, óháð félagaformi eða stærð með tilteknum undantekningum en tiltekin eftirlitsskyld fjármálafyrirtæki og skráð félög eru t.d. undanskilin.
Hvað felst í tilskipuninni?
Reglurnar fela í sér að félag þarf að gangast undir þríþætt próf, sem ætlað er að bera kennsl á hvers konar lögaðila sem kann að vera nýttur í þeim tilgangi að sniðganga skatta. Lögaðili sem fellur undir alla þrjá neðangreinda þætti, þarf með aukinni skýrslugjöf að sýna fram á lágmarks efnislega tilvist:
- Meira en 65% af tekjum aðilans á síðustu tveimur rekstrarárum eru annað en atvinnurekstrartekjur, t.d. vextir eða arður.
- Meira en 55% af tekjum aðilans á síðustu tveimur rekstrarárum stafa frá starfsemi í öðrum löndum eða renna til erlendra aðila.
- Aðilinn hefur, á síðustu tveimur rekstrarárum, útvistað til þriðja aðila umsýslu daglegs reksturs og töku mikilvægra ákvarðana.
Þeir sem falla undir öll þrjú viðmiðin ber skylda til aukinnar upplýsingagjafar í skattframtali viðkomandi skattaárs. Sérstök undanþága getur átt við ef sýnt er fram á að skattalegir hvatar búi ekki að baki tilvist félagsins.
Upplýsingaskyldir aðilar skulu upplýsa um hvort og hvernig þeir uppfylli tiltekin skilyrði um lágmarks efnislega tilvist og leggja fram gögn því til stuðnings. Skilyrðin eru eftirfarandi:
- Félagið nýtir eigin húsnæði eða með öðrum lögaðila innan samstæðunnar.
- Félagið á a.m.k. einn virkan bankareikning/rafeyrisreikning innan ESB þar sem tekjur eru mótteknar.
- Félagið hefur a.m.k. einn stjórnanda sem er með skattalegt heimilisfesti í ESB ríki þar sem félagið er staðsett og hann hefur heimild til að taka ákvarðanir í tengslum við starfsemina sem skapar félaginu tekjur.
Ef öll skilyrðin eru uppfyllt telst aðilinn hafa lágmarks efnislega tilvist á viðkomandi skattári, en að öðrum kosti verður skattaðilinn að sýna fram á að viðskiptaleg rök séu fyrir tilvist félagsins og að ekki sé um skattasniðgöngu að ræða (öfug sönnunarbyrði).
Hvaða áhrif hefur tilskipunin á íslensk fyrirtæki?
Tilskipunin getur haft áhrif á íslensk fyrirtæki sem eiga félag í samstæðu sinni með skattalega heimilisfesti innan ESB. Sérstaklega gætu reglurnar komið við kaunin á eignarhaldsfélögum sem nýta sér hagræði tvísköttunarsamninga og aðrar ívilnanir einstakra ESB ríkja. Ekki er óþekkt að starfsemi alþjóðlegra fyrirtækja sé að einhverju leyti rekin gegnum eignarhaldsfélög í skattalega hagstæðari lögsögum innan ESB, t.d. Hollandi, Írlandi, Lúxemborg og Kýpur.
Hvenær er gert ráð fyrir að tilskipunin taki gildi?
Gert er ráð fyrir að aðildarríki ESB innleiði fyrirhugaðar ráðstafanir í innlenda skattalöggjöf fyrir 30. júní 2023, með gildistíma frá 1. janúar 2024. Til að ákvarða hvort aðili falli undir gildissvið tilskipunarinnar skal beita tveggja ára afturhvarfsreglu og gæti því staða skattaðilans frá og með 1. janúar 2022 gilt sem viðmiðunarpunktur við matið.
Næstu skref
Fyrirtæki sem eiga félög innan ESB ættu að gefa reglunum gaum í tíma og þá sérstaklega með tilliti til tveggja ára afturhvarfsreglunnar.
Samstæður sem eiga óvirk eignarhaldsfélög í aðildarríkjum ESB mættu huga að afskráningu félaganna, þar sem þau geta fallið undir aukna upplýsingaskyldu þrátt fyrir að geta ekki nýtt sér skattahagræði tvísköttunarsamninga eða aðrar ívilnanir.
Grein eftir Ragnihildi Lárusdóttur yfirverkefnastjóra á Skatta- og lögfræðisviði EY.