Breytingar á hluthafahóp og í stjórnendateymi EY

Breytingar hafa verið gerðar á hluthafahóp og í stjórnendateymi EY. Stefán Þ. Björnsson hefur bæst við í hóp hluthafa ásamt því að gerðar hafa verið breytingar á stjórnendateyminu. Bergur leiðir stafræna þróun og sjálfvirknivæðingu Viðskiptaþjónustu EY, Hafdís er nýr sviðsstjóri Kjarnasviðs og Snjólaug nýr sviðsstjóri Sjálfbærniráðgjafar.

Stefán Þ. Björnsson verður hluthafi hjá EY

Stefán Þ. Björnsson hefur bæst við í hóp hluthafa hjá EY á Íslandi. Stefán hóf störf hjá EY árið 2010 og hefur yfir 20 ára reynslu af störfum við endurskoðun og uppgjör. Hann hefur jafnframt víðtæka þekkingu á lögum um ársreikninga og alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS). Stefán hefur verið í forsvari innra starfs EY varðandi umbætur ferla tengt stafrænni endurskoðun síðustu ár. Stefán er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík auk þess er hann með M.A.c.c í reikningshaldi og endurskoðun frá Háskóla Íslands. Stefán hlaut löggildingu í endurskoðun árið 2006. 

„Stefán býr yfir mikilli þekkingu og reynslu á endurskoðunar og kemur hann með að efla starfsemi EY enn frekar“ að sögn Margrétar Pétursdóttur forstjóra EY á Íslandi. Eftirfarandi breytingar hafa jafnframt verið gerðar á stjórnendateymi EY.

 


Bergur Dan leiðir stafræna þróun og sjálfvirknivæðingu Viðskiptaþjónustu EY

Bergur Dan hóf störf hjá EY á Íslandi á árinu 2021 og leiðir stafræna þróun og ráðgjöf í Viðskiptaþjónustu EY á sjálfvirkari og pappírslausum bókhaldsferlum viðskiptavina. Stafræn þróun og sjálfvirkni er jafnframt liður í því að vinna að innri markmiðum EY að verða að fullu kolefnishlutlaust árið 2025.

Bergur starfaði áður hjá Virtus sem sérfræðingur í sjálfvirkni og pappírslausu bókhaldi. Áður sinnti Bergur þróun og hagræðingu fjárhags- og sölulíkanna, sem og framvinduskýrslu sölu hjá Andrá. Bergur var einnig einn af stofnendum Litla fjármálastjórans ehf. sem veitti bókhaldsþjónustu og ráðgjöf.  Bergur er með B.Sc. gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

 


Hafdís sviðsstjóri Kjarnasviðs

Hafdís Björk Stefánsdóttir er nýr sviðsstjóri Kjarnasviðs EY á Íslandi. Undir Kjarnasvið falla mannauðsmál, markaðsmál, viðskiptaþróun, upplýsingtækni og rekstur. Hafdís hóf störf hjá EY á árinu 2013 þá á Ráðgjafasviði sem verkefnastjóri. Hafdís starfaði áður á fjármálamarkaði í um 20 ár lengst af hjá Byr sparisjóð, sem forstöðumaður í viðskiptaþróun og markaðsmálum, verkefnastjóri á skrifstofu forstjóra, sérfræðingur í áhættustýringu og sem regluvörður. Hafdís stundaði nám í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík og er í MBA námi við Hult viðskiptaháskólann í Bandaríkjunum, nám sem er samstarfsverkefni EY og Hult.

 

Snjólaug sviðsstjóri Sjálfbærniráðgjafar

Snjólaug Ólafsdóttir er nýr sviðsstjóri Sjálfbærniráðgjafar en hún hefur starfað sem yfirverkefnastjóri í Sjálfbærniráðgjöf EY frá árinu 2021. Snjólaug hefur unnið að verkefnum með áherslu á leiðtogaþjálfun í sjálfbærni, sjálfbærnistefnumótun, greiningu á kolefnisspori í virðiskeðju fyrirtækja,  markmiðasetningu og fræðslu varðandi sjálfbærni fyrir stjórnendur og starfsfólk. Áhersla hennar hefur verið að aðstoða við breytingar í átt til sjálfbærni á uppbyggilegan og styðjandi hátt. Snjólaug rak áður fyrirtækið, Andrými sjálfbærnisetur. Hún starfaði hjá  Orku Náttúrunnar og Orkuveitu Reykjavíkur auk þess sem hún hefur kennt sjálfbærni við Tækni og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.  Snjólaug var ráðgjafi við gerð loftlagsmælis Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð auk þess sem hún var ritari vísindanefndar um loftlagsáhrif á Íslandi. Snjólaug er umhverfisverkfræðingur með doktorsgráðu í umhverfisverkfræði frá Háskóla Íslands og er menntaður markþjálfi.