Breytingar á reglugerð um skil á ríki-fyrir-ríki skýrslu

Íslensk stjórnvöld hafa undanfarin ár lagt mikla áherslu á að taka þátt í samstarfi sem lýtur að því að koma í veg fyrir alþjóðlega skattasniðgöngu m.a. með innleiðingu reglna sem byggjast á hinni svokölluðu BEPS aðgerðaráætlun OECD (Base Erosion and Profit Shifting).

Liður í þessu var lögfesting 91. gr. (a) laga nr. 90/2003 (tsl) þar sem móðurfélagi sem skráð er hérlendis og á félög/félag erlendis og myndar þannig alþjóðlega fyrirtækjasamsteypu, er gert skylt að skila til ríkisskattstjóra svokallaðri ríki-fyrir-ríki skýrslu sem á að auðvelda skattyfirvöldum eftirlit með skattskilum slíkra samstæðna, einkum þó milliverðlagningu, á alþjóðavísu. Í kjölfarið var sett reglugerð um ríki-fyrir-ríki skýrslu nr. 1166/2016 frá 22. desember 2016.

Í 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar var tekið fram að ríki-fyrir-ríki skýrsla skyldi innihalda sundurliðaðar upplýsingar um hvert félag innan heildarsamstæðunnar.

Með þessari framsetningu gengu íslensku reglurnar mun lengra en leiðbeiningarreglur OECD gerðu ráð fyrir og lögðu því meiri kvaðir á íslensk móðurfélög sem falla undir reglurnar en lagðar eru á sambærileg félög með heimilisfesti í hinum OECD ríkjunum. Ríki-fyrir-ríki skýrsla til íslenskra skattyfirvalda þurfti að innihalda upplýsingar um hvert samstæðufélag innan heildarsamstæðunnar en ekki einungis samanlagðar upplýsingar fyrir hvert ríki þar sem samstæðan er með starfsemi, eins og 13. liður aðgerðaráætlunar OECD gerir ráð fyrir.  

Samkvæmt 2. mgr. 91. gr. (a) tsl. kemur fram að skyldan hvíli á öðrum félögum á Íslandi en móðurfélagi heildarsamstæðu ef móðurfélagið er erlent og tiltekin skilyrði eru fyrir hendi. Þar sem ekki er gert ráð fyrir í reglum OECD að erlendu móðurfélögin þyrftu að tilgreina upplýsingar hvers og eins félags í hverju ríki, getur verið erfitt fyrir íslenska félagið að nálgast umbeðnar upplýsingar.

Þá vaknaði upp sú spurning hjá EY og viðskiptavinum okkar hvernig farið yrði með varðveislu slíkra viðkvæmra upplýsinga í framkvæmd?

EY Ísland beindi þessari fyrirspurn til ríkisskattstjóra enda höfðu viðskiptavinir okkar áhyggjur af því að geta ekki uppfyllt þær kröfur sem íslenskar reglur lögðu þeim á herðar.

Þann 10. mars 2017 var útgefin reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 1166/2016 um skil á ríki-fyrir-ríki skýrslu þar sem m.a. 4. gr. reglugerðarinnar var breytt til samræmis við leiðbeiningarreglur OECD.

Ef þitt fyrirtæki þarf aðstoð við milliverðlagningu og ríki-fyrir-ríki skýrslu eða önnur álitaefni tengd alþjóðlegum skattarétti, getur þú haft samband við sérfræðinga okkar á því sviði.

 


 

Símon Jónsson

Yfirverkefnastjóri Skattasviði
Sími: 840-2008
Email View Vicky Conybeer's LinkedIn profileLinkedIn


 

Ragnhildur Lárusdóttir

Verkefnastjóri Skattasviði
Sími: 825-2575
Email View Vicky Conybeer's LinkedIn profileLinkedIn