Sjálfbærnidagur atvinnulífsins
18.11.2022
EY á Íslandi og Samtök atvinnulífsins (SA) halda árlegan Sjálfbærnidag atvinnulífsins þar sem fyrirtæki á Íslandi geta sótt sér nýjustu þekkingu sem nýtist þeim í rekstri út frá sjálfbærni og þremur stoðum hennar; vernd umhverfisins, félagslegri velferð og efnahagsvexti.
Dagurinn er nú haldinn í annað sinn 23. nóvember kl. 09:00 í Kaldalóni Hörpu undir yfirskriftinni Verðmæti í virðiskeðjunni.
Aðalfyrirlesari dagsins er Cecilie Kjeldsberg, sérfræðingur í mannréttindum, en hún mun fara yfir það regluverk sem er framundan er varðar mannréttindi í virðiskeðjum og hvert hlutverk fyrirtækja verður. Kjeldsberg leiðir mannréttindateymi innan sjálfbærnisviðs EY á Norðurlöndunum og var valin ein af vonarstjörnum Noregs (e. Guiding Stars) í tengslum við 30 undir 30 listann. Hún hefur viðamikla reynslu af stýringu ábyrgrar virðiskeðju og hefur meðal annars unnið á Indlandi við það að tryggja vinnuaðstöðu verksmiðjustarfsfólks. Teymi Kjeldsberg í Noregi ráðleggur fyrirtækjum í öllum atvinnugeirum um það hvernig virða skuli mannréttindi og fylgja lögum Noregs er varða mannréttindi í virðiskeðju (e. Transparancy Act).
Cecilie og Dr. Snjólaug Ólafsdóttir munu síðan leiða spennandi vinnustofu í lok dagskrár sem ber heitið: A step-by-step approach to introduce a human rights framework to your business: learnings from the energy sector in Norway.
Hlökkum til að sjá ykkur - öll velkomin!