EY kaupir vottunarstofuna iCert

EY hefur keypt allt hlutafé í vottunarstofunni iCert ehf., sem hefur skapað sér sérstöðu í vottunum og óháðum staðfestingum. Kaupsamningur þess efnis var undirritaður þann 10. desember sl. 

Markmiðið með kaupunum er að styrkja stöðu EY á markaði og víkka út starfsemi fyrirtækisins enn frekar með áherslu á óháða staðfestingarvinnu og vottanir. EY vill halda áfram að bjóða viðskiptavinum iCert upp á faglega og trausta þjónustu en jafnframt leita leiða til að styrkja hana enn frekar og mun Jón Karlsson, framkvæmdastjóri iCert, leiða uppbyggingu félagsins á þessu sviði. Auk þess mun Guðmundur Sigbergsson, einn stofnanda vottunarstofunnar, veita ráðgjöf við uppbygginguna.

iCert hefur verið leiðandi í  jafnlaunavottun fyrirtækja undanfarin ár auk þess að bjóða upp á aðrar vottanir m.a. út frá umhverfisstjórnunarkerfum, ISO stöðlum og Vakanum, gæða og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar. Vottunarstofan hefur einnig þróað aðferðafræði við að hjálpa fyrirtækjum og stofnunum við að lýsa yfir fullu kolefnishlutleysi (e. net zero) og við ábyrga kolefnisjöfnun og ætlar EY að halda þeirri þróun áfram í samstarfi við innlenda lykilhagaðila og í samræmi við alþjóðlegar kröfur.  

„Félögin tvö, EY og iCert, eru með sameiginlega sýn með tilliti til óháðrar staðfestingar og vottana og trúa á mikilvægi slíkra staðfestinga til þess að efla traust, trúverðugleika og gagnsæi á markaði með því að stuðla að áreiðanlegri sjálfbærri upplýsingagjöf fyrirtækja. Við erum spennt fyrir því að starfa undir merkjum EY sem hefur verið leiðandi á sviði sjálfbærni og loftslagsmála á heimsvísu sem og hér á landi. Við munum leggja mikla áherslu á að byggja upp vottunar- og staðfestingarþjónustu til að gera hana enn betri fyrir viðskiptavini okkar og við hlökkum til vegferðarinnar.“ segir Jón Karlsson, framkvæmdastjóri iCert.

„iCert hefur skapað sér sérstöðu, bæði á sviði jafnlaunavottunar og loftlagsmála og því afar ánægjulegt að fá félagið til liðs við okkur. EY leggur mikla áherslu á sjálfbærni og loftslagsmál, bæði okkar eigið framlag og einnig að aðstoða viðskiptavini okkar á þeirra vegferð. Mikill vöxtur hefur verið í sjálfbærniráðgjöf, staðfestingarvinnu og vottunum hjá EY á alþjóðavísu vegna aukins þunga á þessa þætti hjá fyrirtækjum og stofnunum og hefur EY á að skipa fjölbreyttum hópi sérfræðinga á þessum sviðum um allan heim. Við þessa þekkingu bætist nú við aukin reynsla á sviði jafnlaunavottunar sem við munum miðla á alþjóðavísu. Við erum því full tilhlökkunar að halda áfram á þessari vegferð og styðja enn frekar við viðskiptavini okkar.” segir Margrét Pétursdóttir, forstjóri EY. 

Um EY

EY er á heimsvísu á meðal leiðandi fyrirtækja á sviði endurskoðunar, skatta- og lögfræðimála og ráðgjafarþjónustu. Við leggjum áherslu á langtímavirði fyrir viðskiptavini okkar, starfsfólk okkar og fyrir samfélagið í heild sinni. Við þjálfum framúrskarandi leiðtoga sem starfa saman að því að uppfylla fyrirheit okkar til allra þeirra sem hagsmuni hafa af starfsemi okkar. EY hefur sett loftslagsmálin á oddinn í starfseminni sinni og er með neikvæða kolefnislosun (e. carbon negative) fyrir síðasta fjárhagsár sem er mikilvægur áfangi til að EY verði að fullu kolefnishlutlaust (e. Net-Zero) fyrir árið 2025. EY starfar í yfir 150 löndum og er starfsfólk nú yfir 300.000 talsins.

Um iCert

iCert er faggilt vottunarstofa sem veitir vottanir á stjórnunarkerfum s.s. jafnlaunakerfum, gæðastjórnunarkerfum, umhverfisstjórnunarkerfum og stjórnunarkerfum um heilsu og öryggi á vinnustöðum. iCert veitir jafnframt vottun á Vakanum, gæða og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar, vottun um kolefnishlutleysi og kolefnisjöfnun á grundvelli krafna CO2 Neutral auk staðfestinga um grænt bókhald, samfélagsskýrslur og fleira.

Á mynd, frá vinstri: Lilja Pálsdóttir, Jón Karlsson, Margrét Pétursdóttir, Sigurður Harðarson og Guðmundur Sigbergsson.