Meniga hlýtur óháða staðfestingu á kolefnisreikni

EY hefur veitt kolefnisreikni Meniga, Carbon Insight, staðfestingu með takmarkaðri vissu í samræmi við alþjóðlegan staðal (e. Limited Assurance). Slíkt felur í sér takmarkaða staðfestingu EY á áreiðanleika útreikninga Meniga á kolefnisspori útgjaldaflokka fyrir einkaneyslu fólks. Kolefnisreiknir Meniga er einn af þeim fyrstu af þessu tagi til þess að hljóta slíka staðfestingu.

Viðhorfskannanir EY og Meniga sýna að almenningur um allan heim vill gera neyslu sína sjálfbærari. Nýleg rannsókn Meniga sýnir að 62% evrópskra neytenda vilja sjá yfirlit yfir kolefnisspor í bankaappinu sínu.

„Við hjá EY höfum sett sjálfbærni í víðasta skilningi þess hugtaks í forgang hjá okkur og það er okkur mikil ánægja að hafa tekið þátt í því verkefni sem Meniga er að inna af hendi. Það að fyrirtæki afli sér óháðrar staðfestingar á mikilvægum upplýsingum er varða sjálfbærni eykur gagnsæi og traust gagnvart starfsemi þeirra og færir okkur sem samfélag nær markmiðum okkar um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040,” segir Margrét Pétursdóttir, forstjóri og meðeigandi hjá EY.

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Meninga.