Nýr forstjóri EY á Íslandi
Margrét Pétursdóttir mun taka við af Ásbirni Björnssyni sem forstjóri EY á Íslandi á næsta aðalfundi félagsins sem haldinn verður í september.
Margrét er einn af eigendum EY og hefur starfað hjá félaginu frá stofnun þess á Íslandi. Margrét hefur verið sviðsstjóri endurskoðunarsviðs undanfarin ár. Í störfum sínum hjá EY hefur Margrét veitt fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum þjónustu, bæði sem ytri og innri endurskoðandi auk annarrar þjónustu. Auk starfa sinna hjá EY hefur Margrét verið formaður Félags löggiltra endurskoðenda, FLE, og situr núna í stjórn Alþjóðasambands endurskoðenda, IFAC.
Fráfarandi forstjóri, Ásbjörn Björnsson, er einn af stofnendum félagsins og hefur áratuga reynslu af endurskoðun og ráðgjöf. Hann mun starfa áfram hjá EY og veita viðskiptavinum félagsins þjónustu.