Ragnar Oddur og Símon Þór í hluthafahóp EY
Ragnar Oddur Rafnsson og Símon Þór Jónsson hafa bæst í hóp hluthafa hjá EY endurskoðun og ráðgjöf. Báðir búa þeir yfir mikilli þekkingu og reynslu á sínu sviði og koma til með að efla starfsemi EY enn frekar.
Ragnar Oddur Rafnsson hóf störf hjá EY á árinu 2013 og starfar á Ráðgjafarsviði. Hann er með Bsc. í rekstrar-og fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Ragnar býr yfir mikilli þekkingu og reynslu á sviði fyrirtækjaráðgjafar og hefur starfað á því sviði sl. 11 ár. Hann hefur stjórnað og unnið að framkvæmd margvíslegra áreiðanleikakannana og stýrt kaupa- og söluferli, einkavæðingu og sameiningu félaga hér heima og erlendis. Áður starfaði Ragnar hjá PwC. Ragnar er í sambúð með Ágústu Sif Víðisdóttur og á fjögur börn.
Símon Þór Jónsson hdl. hóf störf hjá EY á síðasta ári og starfar hann á Skattasviði EY. Hann er lögfræðingur frá Háskóla Íslands og með diploma í hagfræði frá sama skóla, auk þess sem hann hefur sótt sér menntun í Leiden University varðandi tvísköttunarsamninga. Símon hefur mikla þekkingu og reynslu á flóknum skattamálum og hefur áratuga starfsreynslu á því sviði. Hann hefur áður starfað hjá Ríkisskattstjóra og skatta- og lögfræðisviði KPMG og Deloitte. Símon Þór er kvæntur Drífu Magnúsdóttur og eiga þau fjögur börn.
Ásbjörn Björnsson, forstjóri Ernst & Young á Íslandi:
„Það er ánægjulegt að fá þá Ragnar og Símon í hluthafahóp EY. Þekking þeirra, reynsla og sérhæfing hefur nýst viðskiptavinum okkar vel til að styðja viðgang og vöxt í sinni starfsemi. EY á Íslandi hefur upp á að bjóða fjölda reynslumikilla endurskoðenda og sérfræðinga sem gerir okkur kleift að bjóða upp á gæðaþjónustu á hverjum tíma. Við sjáum fram á breytingar á endurskoðunar- og ráðgjafarmarkaði á komandi misserum, ekki síst vegna aukinnar sjálfvirkni og tækniþróunar ásamt vaxandi þörf á víðtækri þekkingu á sviði alþjóðlegs skattaréttar og almenns lagaumhverfis viðskiptalífsins. Stækkun hluthafahópsins styrkir okkur í þeim áskorunum sem fram undan eru í starfsemi okkar.“