Sjálfbærniráðgjöf EY hefur borist sterkur liðsauki

Sjálfbærniráðgjöf EY hefur borist sterkur liðsauki
 
Björgheiður Margrét Helgadóttir er með M Sc. gráðu í verkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og stundar diplómanám í hagnýtri jafnréttisfræði við Háskóla Íslands. Hún hefur unnið fjölbreytt störf í tækni og iðnaði en hún starfaði áður sem verkefnastjóri í verkfræðideild Alvotech og sem sérfræðingur í upplýsingatækni hjá Innnes. Björgheiður hefur mikla reynslu á sviði jafnréttismála þar sem hún sat í stjórn Ungra athafnakvenna (UAK) og mun leggja áherslu á félagslega hluta sjálfbærni svo sem mannréttindi og jafnrétti.
 
Hjördís Sveinsdóttir er með B Sc. í viðskiptafræði með tölvunarfræði sem aukagrein frá Háskólanum í Reykjavík og viðbótardiplómu í Umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands. Hún starfaði áður hjá Umhverfisstofnun við innleiðingu Grænna skrefa hjá ríkisstofnunum. Hjördís mun leggja áherslu á verkefni tengd samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda, hringrásarhagkerfinu og stefnumótun.
 
Sveinn Þráinn Guðmundsson er með B Sc. í fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann kemur til EY beint úr námi en hefur sinnt fjölbreyttum störfum í gegnum tíðina. Sveinn mun sérhæfa sig í grænum fjármálum og innleiðingu flokkunarkerfis fyrir sjálfbærar fjárfestingar ESB (e. EU Taxonomy).
Sjálfbærniráðgjöf EY býður upp á víðtæka þjónustu við fyrirtæki og stofnanir sem eru á sjálfbærnivegferð, hvar sem þau eru stödd í vegferðinni. Fræðsla fyrir stjórnendur og starfsfólk fær mikið vægi þar sem mikilvægt er að öll sem koma að borðinu séu með sama skilning áður en skýr stefna er mörkuð. Sviðið hefur víðtæka sérfræðiþekkingu m.a. á sviði sjálfbærnistefnumótunar og markmiðasetningar, hringrásarhagkerfis, alþjóðlegra vistvottunarkerfa, kolefnismælinga og UFS/loftslagsáhættugreininga svo eitthvað sé nefnt. Teymið vinnur þvert á önnur svið EY og er hluti af alþjóðlegu CCaSS (e. Climate Change and Sustainability Services) teymi EY með sérstakri áherslu á samstarf við Norðurlöndin.
 
Dr. Snjólaug Ólafsdóttir stýrir Sjálfbærniráðgjöf EY en hún er mörgum kunn sem hafa fylgst með sjálfbærnimálum á Íslandi síðustu ár. Snjólaug hefur viðamikla reynslu af því að aðstoða fyrirtæki og stofnanir í loftslags- og sjálfbærnimálum.
Sjálfbærniráðgjöf EY stendur, ásamt Samtökum Atvinnulífsins, fyrir Sjálfbærnidegi Atvinnulífsins sem fer fram 23. nóvember næstkomandi og er skráning hafin hér