Fyrirhugaðar reglur um alþjóðlegan lágmarksskatt

Pillar Two Model Rules (einnig nefndar „Anti Global Base Erosion“ eða „GloBE“ reglurnar, voru kynntar af Efnahags- og framfararstofnun (OECD) þann 20. desember 2021, og eru hluti af tveggja stoða lausn, sem sett var fram til að takast á við skattaáskoranir í kjölfar stafrænnar væðingar hagkerfisins. Reglurnar samþykktu 137 af 140 aðildarríkjum OECD/G20 aðgerðaráætlunar – BEPS (Base Erosion and Profit Shifting), eða aðgerðaráætlun gegn rýrnun skattstofna og tilfærslu skattskylds hagnaðar.

Reglurnar eru m.a. liður í því að koma böndum á starfsemi fyrirtækja sem fer að mestu leyti fram á netinu.

Reglurnar kveða á um samræmt skattkerfi sem ætlað er að tryggja að stór fjölþjóðleg fyrirtæki greiði 15% lágmarksskatt af tekjum sem myndast í hverri lögsögu þar sem samsteypan starfar. Reglurnar gera ráð fyrir „uppbótarskatti“ sem á að beita á hagnað í hvaða lögsögu sem er þegar virkt skatthlutfall, ákvarðað á lögsögugrundvelli, er undir lágmarks 15% hlutfallinu.

Lágmarkskatthlutfallið tekur til þeirra fyrirtækja sem eru með tekjur yfir 750 milljónum evra og eru með starfsemi í tveimur eða fleiri lögsögum. Reglurnar gera ráð fyrir nokkrum undanþágum t.d. eiga GloBE reglurnar ekki við um ríkisstofnanir, alþjóðastofnanir, aðila sem uppfylla skilgreiningu um að vera lífeyrissjóður o.s.frv.

Reglurnar eru settar fram sem fyrirmyndir að reglum eða sniðmát  til að auðvelda aðildarríkjum að  innleiða GloBE reglurnar í innlenda löggjöf. Þær kveða á um samræmt kerfi samtengdra reglna sem:

  • Skilgreina fjölþjóðafyrirtæki sem falla undir reglur um lágmarksskatt
  • Setja fram kerfi til að reikna út virkt skatthlutfall fjölþjóðafyrirtæki á lögsögugrundvelli og til að ákvarða upphæð viðbótarskatts sem ber að greiða samkvæmt reglunum; og
  • leggja uppbótarskatt á viðkomandi fyrirtæki  í samræmi við reglurnar

Gert er ráð að þessar reglur hafi gríðarleg áhrif á heimsvísu þar sem alþjóðleg fyrirtæki hafi verið að nýta sér glufur í alþjóðalöggjöfinni til þess að komast hjá greiðslu skatta en reglurnar hafa einnig verið gagnrýndar fyrir að hamla samkeppni milli ríkja um fyrirtæki því nú borgar sig síður að standa í endurskipulagningu og að færa til fyrirtæki milli landa.

Upphaflega var gert ráð fyrir að ríki myndu innleiða reglurnar á árinu 2022 og kæmu til framkvæmda á árinu 2023 en því hefur verið frestað um 1 ár.