Við bjóðum Gunnar, Snjólaugu og Hólmfríði velkomin til EY!

Gunnar starfaði áður hjá Íslandsbanka en þar leiddi hann setningu nýrrar sjálfbærnistefnu og stýrði lykilverkefnum á sviði sjálfbærni svo sem í tengslum við útgáfu á grænum skuldabréfum. Áður sinnti Gunnar fjárfestatengslum fyrir bankann. Gunnar starfaði á árunum 2012-2017 við tæknilega fjármálaráðgjöf hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington DC og þar áður starfaði hann við fjármálaráðgjöf hjá framkvæmdastjórn ESB í Brussel. Gunnar er stjórnarmaður í Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð og er með MSc í Evrópskri stjórnmála- og hagfræði frá London School of Economics (UK), BA próf í Alþjóðatengslum frá Gonzaga University (USA) og er löggiltur verðbréfamiðlari.
Snjólaug rak áður fyrirtækið, Andrými sjálfbærnisetur, sem veitti fræðslu- og ráðgjafaþjónustu í sjálfbærni og loftslagsmálum. Þar lagði hún áherslu á leiðtogaþjálfun í sjálfbærni, sjálfbærnistefnumótun og markmiðasetningu og fræðslu varðandi sjálfbærni fyrir stjórnendur, sérfræðinga og annað starfsfólk. Áhersla hennar hefur verið að aðstoða við breytingar í átt til sjálfbærni á uppbyggilegan og styðjandi hátt. Snjólaug starfaði áður hjá  Orku Náttúrunnar og Orkuveitu Reykjavíkur auk þess sem hún hefur kennt sjálfbærni við Tækni og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.  Snjólaug var ráðgjafi við gerð loftlagsmælis Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð auk þess sem hún var ritari vísindanefndar um loftlagsáhrif á Íslandi. Snjólaug er umhverfisverkfræðingur með doktorsgráðu í umhverfisverkfræði frá Háskóla Íslands og er menntaður markþjálfi.

Hólmfríður Kristín hefur verið ráðin sem sérfræðingur í grænum fjármálum, jafnréttismálum og stefnumótun fyrirtækja. Hólmfríður býr yfir fjölbreyttri reynslu á sviði rekstrar, verkefnastjórnunar, stjórnunar og stefnumótunar. Hólmfríður Kristín er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði og  M.Sc. gráðu í fjármálum og rekstri fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík með áherslu á græn skuldabréf. Hún hefur mikla  reynslu á sviði verkefnastjórnunar, rekstrar, stjórnunar og stefnumótunar. Hólmfríður starfaði við verkefnastýringu í markaðs- og vöruþróun hjá Nova og fyrir það starfaði hún á auglýsingastofunni Jónsson & Le‘macks, nú Aton.JL.