14h05563_rf

Símon

Símon Þór Jónsson
Sviðsstjóri skatta- og lögfræðisviðs
Sími: 840-2008

simon.jonsson@is.ey.com

Alþjóðlegir skattar

Tekjur innlendra aðila frá útlöndum
Tekjur sem íslenskir skattaðilar afla erlendis frá eru skattlagðar á Íslandi á grundvelli skattalegs heimilisfestar þeirra á Íslandi. Erlenda ríkið skattleggur einnig tekjurnar á grundvelli uppruna þeirra. Tekjur eru því skattskyldar í tveimur ríkjum. Ef tvísköttunarsamningur er fyrir hendi á milli ríkjanna er hægt að koma í veg fyrir slíka tvísköttun. Ef tvísköttunarsamningur er ekki fyrir hendi er hægt að sækja um til ríkisskattstjóra að tekið sé tillit til skattgreiðslna erlendis. Starfsmenn EY hafa mikla reynslu af verkefnum á þessu sviði.

Tekjur erlendra aðila á Íslandi
Þegar erlendir skattaðilar koma til Íslands til tímabundinnar tekjuöflunar þarf að huga að ýmsum þáttum. Í tilviki einstaklinga þarf meðal annars að huga að dvalarleyfum, atvinnuleyfum, tilkynningum til Vinnumálastofnunar, tryggingarréttindum, réttindum á vinnumarkaði og skattlagningu. Í tilviki lögaðila þarf meðal annars að huga að tilkynningum til Vinnumálastofnunar og ákvarða hvort föst starfsstöð lögaðilans stofnist á Íslandi. Starfsmenn EY aðstoða á hverjum tíma fjölmarga erlenda aðila sem starfa tímabundið á Íslandi.

Afdráttarskattar
Þeim sem greiða tekjur frá Íslandi til aðila með skattalegt heimilisfesti utan Íslands ber yfirleitt að halda eftir og skila í ríkissjóð staðgreiðslu skatts eða afdráttarsköttum. Ef í gildi er tvísköttunarsamningur milli Íslands og heimaríkis móttakandans getur skatturinn lækkað, en aftur á móti er ekki heimilt að haga staðgreiðslu í samræmi við ákvæði tvísköttunarsamningsins nema fyrirfram hafi verið sótt um og fengin heimild til slíks frá ríkisskattstjóra. Á sama máta geta innlendir aðilar staðið frammi fyrir því að greiðandi í erlendu ríki hyggist halda eftir, eða hafi haldið eftir, skatti af erlendum tekjum. Ef tvísköttunarsamningur er fyrir hendi, er mögulegt að fá slíkan skatt felldan niður eða lækkaðan og í mörgum tilvikum er hægt að óska eftir að tekið sé tillit til slíks greidds skatts við skattlagningu hér á landi. Starfsmenn EY hafa mikla reynslu af ráðgjöf og framkvæmd á þessu sviði, bæði vegna greiðslna á tekjum frá Íslandi og vegna móttöku tekna frá erlendu ríki.

Tvísköttunarsamningar
Ríki leggja almennt skatt á tekjur, annars vegar vegna þess að tekjurnar eru upprunnar í ríkinu (enda þótt móttakandinn sé heimilisfastur í hinu ríkinu) og hins vegar vegna þess að móttakandi teknanna er heimilisfastur í ríkinu (enda þótt tekjurnar séu upprunnar í hinu ríkinu). Þetta leiðir til þess að tekjur sem skattaðili heimilisfastur í ríki A aflar í ríki B verða skattskyldar í báðum ríkjunum. Með tvísköttunarsamningum hafa ríki, tvö eða fleiri, tekið sig saman um að skipta skattlagningarréttinum milli sín til að koma í veg fyrir tvísköttun. Starfsmenn EY hafa víðtæka þekkingu og reynslu af túlkun og beitingu tvísköttunarsamninga.

Milliverðlagning 
Í flestum löndum og þ.m.t. á Íslandi gilda sérstakar milliverðlagningarreglur um viðskipti tengdra lögaðila. Milliverðlagningarreglur kveða á um að í viðskiptum tengdra lögaðila séu verð ákveðin í arms lengd, en með því er átt við að verð séu sambærileg því verði sem hefði myndast á markaði milli ótengdra lögaðila. Skattyfirvöld hafa heimild til að meta og leiðrétta viðskipti tengdra lögaðila með tilliti til milliverðlagningarreglna OECD, ef verðlagning og/eða skilmálar í viðskiptum milli tengdra lögaðila eru ekki sambærilegir því sem almennt gerist í viðskiptum milli ótengdra lögaðila. Gerðar eru sérstakar kröfur til félaga, sem  hafa rekstrartekjur á reikningsári, eða eiga heildareignir í upphafi eða lok reikningsárs, yfir 1 milljarði kr. Slíkum félögum ber að skjala hvernig þau verðleggja viðskipti sín við tengda lögaðila í samræmi við reglur OECD. Starfsmenn EY hafa töluverða reynslu af ráðgjöf og skjölun á þessu sviði.